Video

Um fyrirtækið

Myndband sem ætlað er fólki sem heimsækir vefsíðu og vill fræðast nánar um fyrirtækið og starfsemi þess. Saga fyrirtækisins, stjórnendur, vörur og þjónusta er kynnt.

Ávinningur af vöru eða þjónustu

Hvaða ávinningi skilar varan eða þjónustan? Með skýrum hætti er sýnt hvernig hægt er að leysa vandamál sem væntanlegir kaupendur eru að glíma við.

Vitnisburður viðskiptavina

Ekkert er meira sannfærandi en að sjá og heyra viðskiptavin mæla með vöru þinni og/eða þjónustu með stuttum, hnitmiðuðum skilaboðum. Þessi myndbönd eru oft notuð sem ítarefni með öðru markaðsefni.

Reynslusögur

Vitnisburður viðskiptavina ásamt útskýringu á því hvernig varan eða þjónustan hjálpaði við að ná árangri. Reynslusagan er sögð bæði af viðskiptavini og af þul og getur verið 2-5 mínútur að lengd. Sagt er frá vandamáli – lausn og ávinningi, líkt og oft er gert í prentuðu markaðsefni.

Viðtöl við viðskiptavini

Hér er um viðtal að ræða þar sem viðmælandinn er í mynd en spyrillinn ekki. Þetta getur staðið eitt og sér sem markaðsefni eða ítarefni við önnur markaðsgögn.

Skilaboð frá stjórnendum

Stundum er áhrifaríkara fyrir stjórnendur að tala mannamál og sýna á sér andlitið í einföldu myndbandi heldur en að senda frá sér tölvupóst til stafsmanna og/eða samstarfsaðila. Tilefnið getur verið þegar koma þarf reglubundnum skilaboðum á framfæri, eins og til dæmis ársfjórðungsuppgjöri, eða bregðast við óvæntum aðsæðum sem hafa myndast á markaði sem allir þurfa að bregðast við með samræmdu átaki. Slíkt getur verið afar hvetjandi.

Kynning á starfsfólki

Æðstu stjórnendur þurfa ekki alltaf endilega að vera í framlínunni að kynna fyrirtækið. Áhugavert er að sjá og heyra í fólki sem sinnir daglegum störfum; allt frá þjónustufulltrúum til tæknimanna, bókara, millistjórnenda og allt þar á milli. Verðmæti hvers fyrirtækis eru starfsmenn þess og af hverju ekki að sýna þá?

Viðtöl við vegfarendur

Þessi tegund viðtala eru venjulega gerð til að auglýsa viðburði eða búa til jákvætt umtal. „Spontant“ viðbrögð viðmælenda geta komið skemmtilega á óvart og hjálpað til við að kynna vöru eða þjónustu og aðgreint frá vandamáli sem ef til vill tengjast samkeppnisaðila. Gosdrykkjaframleiðendur, símafyrirtæki og skyndibitastaðir nota oft þessa aðferð í auglýsingum. Stundum er þetta gert heiðarlega en stundum ekki þar sem leikarar eru látnir svara í undirbúnum viðtölum.

Notkunarleiðbeiningar

Tilgangur myndbandsins er að spara kostnað við eftirfylgni og þjónustu við sölu þannig að viðskiptavinir geti hjálpað sér sjálfir. Þetta er oft tæknilegs eðlis og getur haft áhrif á kaupendur sem vilja skoða öll smáatriði í hörgul um virkni vörunnar áður en þeir taka ákvörðun. Þetta getur líka hjálpað tæknimönnum sem til dæmis starfa við uppsetningar/innleiðingar á flóknum tækjabúnaði.

Auglýsing

Auglýsing sem birtist fyrir framan og/eða eftir fréttamyndband á til dæmis mbl.is eða visir.is. Hún getur einnig birst á sjónvarpsskjám í biðsölum, kvikmyndahúsum og inni í verslunum þar sem hægt er að ná athygli afmarkaðs markhóps á hagkvæman hátt.

Söluræða („call to action“)

Oft virkar vel að hafa myndband, frekar en texta eða grafík, á heimasíðu sem ætlað er að fá notendur til að bregðast við strax á ákveðinn hátt (skrá sig á lista, kaupa, leggja málefni lið eins og á Kickstarter eða Karolinafund). Myndbandið svarar öllum spurningum og rökstyður af hverju fólk ætti að taka þessa ákvörðun (“call to action”) á sannfærandi hátt.

„Viral“ myndband

Myndband verður „viral“ þegar fólk sér sig knúið til að deila því áfram á samfélagsmiðlum. Til að ná athygli þurfa „viral“ myndbönd að vera skemmtileg, sjokkerandi eða vera með innihaldsríkan boðskap sem margir geta tengt við og vilja deila áfram.

Kynning í viðtalsformi

Kynning í viðtalsformi getur verið afar áhrifaríkt við sölu á neysluvöru. Myndbandið er í viðtalsformi þar sem farið er yfir kosti vörunnar.

Góðu ráðin

Hvernig leysir tiltekin vara vandamál fyrir viðskiptavin? BYKO hefur verið að gera þetta á samfélagsmiðlum með góðum árangri undanfarið. Kennt er hvernig á að bera sig að við garðyrkjustörf og meðhöndla verkfæri, svo nokkuð sé nefnt.

Myndefni með fréttatilkynningu

Myndefni sem fylgir með sem ítarefni með fréttatilkynningu sparar tíma og fyrirhöfn fréttamanna ljósvakamiðla að finna myndefni til að skreyta frásögnina. Myndefnið auðveldar líka bloggurum og skoðanamyndandi fólki á samfélagsmiðlum að deila því áfram. Fjölmiðlamenn vilja alltaf geta gengið að myndefni frá fyrirtækjum að vísu.

Hluthafar, vörusýningar, ráðstefnur

Skilaboð til hluthafa, myndbönd frá vörusýningum og þátttaka á ráðstefnum. Á ráðstefnum og vörusýningum eru mörg tækifæri sem skapast við að spyrja sérfróða óformlegra spurninga um vöru þína og þjónustu sem viðskiptavinir þínir hafa hag af að vita. Myndband af þessu tagi getur leitt til nýrra fyrirspurna um vöru þína og/eða þjónustu.

Samfélagsleg ábyrgð

Sýndu hvað fyrirtækið er að gera, en ekki bara tala um það, ef fyrirtæki þitt tekur þátt í verkefnum sem auka við samfélagslega ábyrgð og styður við mikilvægt málefni.

Starfsmannahandbók

Eitt það mikilvægasta í öllum fyrirtækjum er að ráða rétta starfsfólkið. Það getur verið áhrifaríkt að sýna myndband af fyrirtækjamenningunni, starfsandanum og þeirri leið sem fyrirtækið er á. Nýir starfsmenn fá strax skilning á gildum, boðleiðum, sögu fyrirtækisins og siðareglum með myndbandi í stað handbókar sem á það til að rykfalla í hillum.

Samheldni starfsmanna

Myndband sem kynnir viðskiptaáætlun, ný tækifæri, áfangasigra og árangur fyrir starfsmönnum. Markmiðið er að auka þekkingu og bæta samheldni starfsmanna sem oft hafa hvorki tíma né getu til að kynna sér hvað önnur teymi innan fyrirtækisins eru að fást við (á við um stærri fyrirtæki og rekstrareiningar).

Þjálfun starfsmanna

Hvernig á að selja eða þjónusta vörur fyrirtækisins? Einföld og skýr kennslumyndbönd eru að ryðja sér til rúms sem geta leyst kostnaðarsöm námskeið af hólmi. Hægt er að koma skilaboðum á framfæri á áhrifaríkan hátt sem fjallar um hvað gerir vöruna/þjónustuna sérstaka; hvað selur hana, hagkvæmni og nytsemi, hvernig á að svara spurningum viðskiptarvina og yfirstíga hindranir við sölu, um eftirfylgni, þjónustu og hvernig á að svara algengum spurningum.